Ætlaði að hafna aðgerðinni

Andemariam Teklesenbet Beyene.
Andemariam Teklesenbet Beyene.

Erítreumaðurinn, sem fékk nýjan barka í Svíþjóð í sumar, segist hafa verið kominn á fremsta hlunn með að hafna því að gangast undir aðgerðina.

Tilkynnt var í síðustu viku, að græddur hefði verið barki í  Andemariam Teklesenbet Beyene, 36 ára gamlan mann, sem stundar meistaranám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Beyene  var talinn dauðvona vegna krabbameins. Æxli í barka hans var orðið of stórt til að hægt væri að fjarlægja það og stefndi í að það myndi brátt teppa öndunarveginn.

Þá var tekin sú ákvörðun að láta reyna á nýjustu framþróun í örtæknivísindum og stofnfrumulíffræði, og framkvæma aðgerð sem aldrei hafði verið gerð áður. Á aðeins tveimur dögum var búinn til nýr barkavefur úr gerviefnum og stoðfrumum, sem teknar voru úr beinmerg Beyene. Vefurinn var svo græddur í háls hans á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Aðgerðin tók 12 klst. og var leidd af ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini. Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á skurðlækningasviði Landspítala og prófessor í skurðlæknisfræði við HÍ, tók þátt í aðgerðinni.

AP fréttastofan hefur eftir Beyene, að hann hafi haft miklar efasemdir um aðgerðina þar sem hún hafi aldrei verið gerð áður. Hann hafi hins vegar tekið ákvörðun eftir að hafa rætt við Tómas og fjölskyldu sína í Eritreu. Þar á hann eiginkonu og tvö börn og það yngra fæddist nú í vor.

„Ég baðst fyrir og samþykkti," segir Beyene við AP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka