Forstjóri Björgunar ehf., Gunnlaugur Kristjánsson, telur það bæði hættulegt og kostnaðarsamt að hafa Landeyjahöfn opna á veturna. Skynsamlegast sé að nýta höfnina sem sumarhöfn og þá viti Eyjamenn að hverju þeir ganga.
Í umfjöllun um Landeyjarhöfn í Morgunblaðinu í dag telur Gunnlaugur nær ómögulegt að miða atvinnurekstur út frá stopulum vetrarferðum. Hann gjörþekkir aðstæður í Landeyjahöfn þar sem Björgun sá um stofn- og viðhaldsdýpkun hafnarinnar. Gunnlaugur segir sandburð í og við höfnina mun meiri en áætlanir hafi gert ráð fyrir, óháð gosinu í Eyjafjallajökli. Mjög erfiðar aðstæður séu til dýpkunar á veturna.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, lítur svo á að Landeyjahöfn sé ekki tilbúin fyrr en hægt verði að sigla þangað allt árið. Fylgja þurfi málinu eftir.