Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugson, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal hafa ítrekað beiðni um að utanríkismálanefnd Alþingis verði kölluð saman til fundar strax.
Í beiðninni vísa þingmennirnir til 24. gr. þingskapa Alþingis þar sem skýrt sé tekið fram að ríkisstjórnin skuli ávallt bera meiriháttar utanríkismál undir hana jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Segja þingmennirnir, að skýringar formanns nefndarinnar, þess efnis að fundur hafi ekki verið kallaður saman vegna sumarleyfa, séu því ófullnægjandi og í andstöðu við þingsköp.
Þingmennirnir þrír segja, að mörg utanríkismálefni krefjist tafarlausrar umfjöllunar nefndarinnar, m.a. yfirlýsingar utanríkisráðherra um að Íslendingar þurfi engar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í komandi aðildarviðræðum.
Óska þeir eftir því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, komi á fund nefndarinnar og einnig að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra komi á fund nefndarinnar og útskýri samningsmarkmið Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið.
Jóhanna hafi útskýrt markmiðin fyrir kanslara Þýskalands í vikunni en utanríkismálanefnd hafi ekki fengið slíka útskýringu. Eðlilegt hljóti að teljast að utanríkismálanefnd Alþingis standi a.m.k. jafnfætis erlendum þjóðarleiðtogum hvað varðar upplýsingagjöf frá ríkisstjórn Íslands.