Múlakvísl verður veitt undir nýja bráðabirgðabrú yfir ána klukkan 17 í dag samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni en áður hafði staðið til að gera það næstu nótt. Vegna þessa verður gert tímabundið hlé á flutningum á bifreiðum og fólki yfir ána á sama tíma eða klukkan 17 en þeir hafa staðið yfir síðan klukkan sjö í morgun.
„Þegar búið verður að veita fljótinu undir bráðbrigðabrúna mun taka 3-4 klukkutíma fyrir ána að setjast á nýjan leik þannig að unnt verði að aka aftur yfir með fólk og bíla. Jarðýtur munu útbúa nýtt vað áður en ferjuflutningar hefjast aftur,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir að flutningunum yfir ána verði haldið áfram um klukkan átta eða níu í kvöld. Hvenær það verður nákvæmlega fer eftir því hversu fljótt árin sest aftur og hversu langan tíma það tekur að gera öruggt vað fyrir flutningana. Þá hefur verið ákveðið að flutningunum verði ekki hætt klukkan 23:00 í kvöld eins og í gærkvöldi heldur haldið áfram á meðan þörf verður á.
Ekki liggur fyrir hvenær verður nákvæmlega hægt að hleypa umferð yfir brúna en gert er ráð fyrir að það verði um helgina að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, annað hvort á morgun laugardag eða á sunnudaginn.