Opnað verður fyrir umferð um nýja bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl á morgun. Stefnt er að því að opnað verði fyrir umferð upp úr hádegi en nákvæmari tímasetning liggur ekki fyrir.
Vegagerðin hóf í dag að veita Múlakvísl undir nýja bráðabirgðabrú yfir ána. „Þetta gengur mjög vel og þetta er að mestu leyti komið,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar um framkvæmdir við Múlakvísl.
Á meðan ánni var veitt undir brúna var hlé gert á flutningum bíla og á fólki yfir Múlakvísl en að sögn G. Péturs er verið að undirbúa vað og áætlað er að flutningar hefjist á ný um níu nú í kvöld.