Sauðfjárbændur hækka verðskrá

Landssamtök sauðfjárbænda hafa gefið út viðmiðunarverð á lamba- og kindakjöti til bænda fyrir árið 2011. Að þessu sinni hækkar verðskráin um 25% frá fyrra ári. 

Samtökin segja, að markaðsaðstæður hafi verið góðar fyrir sauðfjárafurðir undanfarin misseri, útflutningur aukist stórum, verð farið hækkandi í erlendri mynt og eftirspurn aukist.  Meðalverð fyrir útflutt kjöt, innmat og gærur hafi hækkað langt umfram áhrif gengisfalls krónunnar ef miðað sé við þróun frá haustinu 2008.  Eftirspurn innanlands hafi hins vegar verið á svipuðu róli undanfarin tvö ár og birgðir séu í lágmarki.

Verð til bænda hafi hins vegar ekki endurspeglað þessa þróun.  Hækkun bændaverðs hafi verið svipuð almennri verðlagsþróun undanfarin ár en bændur hafi þurft að taka á sig aðfangahækkanir langt um fram það.  Til dæmis hafi áburður þrefaldast í verði frá 2005 og olía hækkað um 233% á sama tíma.  Breytilegur kostnaður á sauðfjárbúum hafi tvöfaldast frá 2005 og heildarrekstrarkostnaður hækkað um 174%, eða þrefalt meira en almennt verðlag á sama tímabili.   

Í ljósi góðra aðstæðna á markaði telji sauðfjárbændur því vera svigrúm til að afurðaverð hækki verulega í haust til að koma til móts við það sem greinin hafi þurft að taka á sig undanfarin misseri.

Viðmiðunarverðið gildir frá og með haustslátrun 2011.  Það er gefið út af Landssamtökum sauðfjárbænda samkvæmt heimild í lögum um framleiðslu, verðalagningu og sölu á búvörum en það er ekki bindandi fyrir afurðastöðvar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert