Dæmdur síbrotamaður sem fékk frestun á tveggja ára fangelsisdómi gegn því að fara í meðferð hefur hafið meðferðina. Hann hringdi í lögmann sinn af Landspítalanum í morgun og bað hann að aka sér á meðferðarstofnun.
Uppfært kl. 13.58
Það er því ekki rétt að maðurinn hafi „útskrifað sig sjálfur“ af Landspítalanum í nótt eins og mbl.is hafði fengið upplýsingar um.
Maðurinn fékk tveggja ára fangelsisdóm í fyrradag en refsingin var skilorðsbundin og háð því skilyrði að maðurinn gengist undir meðferð til að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja.
Ekki var liðinn sólarhringur frá því að maðurinn slapp úr gæsluvarðhaldi í fyrradag þar til hann var kærður fyrir bílþjófnað í gær. Hann var handtekinn og tekin af honum skýrsla hjá lögreglu.
Lögmaður mannsins sagði að maðurinn hafi sjálfur óskað eftir því að fá gistingu hjá lögreglunni og að hún æki honum síðan á meðferðarstofnun í dag. Í nótt fékk maðurinn kviðverki og var fluttur á Landspítalann.
Upplýsingar um að koma ætti manninum í meðferð fylgdu ekki. Hann var skilinn eftir á spítalanum og var peningalaus. Maðurinn hringdi svo í lögmann sinn í morgun sem ók honum á meðferðarstofnun.
Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi 13. júlí sl. fyrir fjölda afbrota eða 13 þjófnaðarbrot, tilraun til þjófnaðar og fíkniefnabrot, Hann á langan sakaferil að baki allt frá árinu 1990. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá 25. maí sl. til þess að dómurinn var kveðinn upp 13. júlí.
Við dómsuppkvaðninguna var ákveðið að fresta fullnustu tveggja ára fangelsisdómsins og fella hann niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu héldi maðurinn almennt skilorð 57. greinar almennra hegningarlaga.
Frestunin var einnig bundin því skilyrði að ákærði gengist undir dvöl á hæli í allt að eitt ár „í því skyni að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja. Skal ákærði hefja slíka dvöl innan viku frá uppkvaðningu dómsins, ella er um rof á þessu skilyrði að ræða,“ eins og segir í dómsorðinu.
Í 57. grein almennra hegningarlaga segir m.a. um frestun refsingar: „Frestun skal vera bundin því skilyrði, að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum“. Það kemur til kasta ákæruvaldsins og dómsvaldsins að ákveða hvort frestunin gildir áfram.
Maðurinn hefur margsinnis verið dæmdur fyrir auðgunarbrot og önnur brot. Síðasta afbrotahrina hans hófst nánast um leið og hann lauk afplánun 12 mánaða fangelsisdóms sem hann fékk 1. desember 2008, að því er segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þetta er ekki fyrsti dómurinn þar sem fangelsisrefsingu er frestað með því skilyrði að hinn ákærði fari í meðferð við neyslu áfengis og lyfja.