Lögregluvarðstjóri var í héraðsdómi Suðurlands í dag sýknaður af ákæru fyrir brot í opinberu starfi með því að hafa gerst offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða er hann hafði afskipti af ölvuðum manni á mótssvæði í Galtalækjarskógi í fyrrasumar.
Var varðstjórinn ákærður fyrir að hafa fyrirskipað öðrum lögreglumönnum að aka með nítján ára gamlan pilt, sem var handtekinn undir áhrifum áfengis, frá mótssvæði í Galtalæk rúma 4 kílómetra leið og skilja hann eftir í nágrenni sumarbústaðs. Leitaði pilturinn eftir aðstoð fólks sem dvaldi í sumarbústaðnum sem kölluðu síðan eftir aðstoð lögreglu.
Var pilturinn handtekinn á nýjan leik og ekið með hann áleiðis að Galtalæk þar sem hann var skilinn eftir á Landvegi, um miðja vegu milli bústaðarins og Galtalækjar.
Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að pilturinn hafði komið til lögreglu um nóttina og viljað fá að blása í alkóhólmæli lögreglu. Hafi honum verið tjáð að ekki væri ástæða til þess þar sem hann væri greinilega ölvaður. Pilturinn gaf sig ekki og bankað í sífellu á rúður lögreglubifreiðarinnar. Hafi honum ítrekað verið gefin fyrirmæli um að láta af háttseminni, yfirgefa vettvang og hætta að ónáða lögreglumenn að störfum. Hafi pilturinn ekki sinnt fyrirmælum lögreglu og að lokum verið dreginn burt af lögreglumanni.
Ekki dugði það til þar sem hann kom strax aftur að lögreglubifreiðinni og hélt uppteknum hætti. Eftir ítrekaðar tilraunir til að fá piltinn til að láta af háttsemi sinni hafi verið ákveðið að færa hann í lögreglubifreiðina. Hafi honum þá verið ekið um 4 – 5 kílómetra út fyrir svæðið þar sem honum hafi verið leyft að yfirgefa lögreglubifreiðina. Hafi pilturinn verið mjög viðskotaillur á leiðinni og haft í hótunum við lögreglumenn, samkvæmt skýrslu lögreglu af atburði næturinnar.
Fram kemur í skýrslunni að um hálftíma síðar hafi aðstoðar lögreglu verið óskað við íbúðarhús sem standi skammt norðan við bæinn Galtalæk vegna ölvaðs manns sem verið hafi til vandræða.
Hafi þá varðstjórinn farið á vettvang ásamt öðrum lögreglumanni þar sem pilturinn hafi valdið heimilisfólki ónæði með því að sparka í hurðir.
Hafi pilturinn verið færður í lögreglubifreið og húsráðendum leiðbeint um hvert þeir gætu snúið sér varðandi mögulegt tjón af völdum hans.
Lögreglan ók með piltinnskammt upp fyrir Galtalækjarskóg eftir Landvegi. Hann settur út úr bifreiðinni og honum sagt að hann yrði að ganga til baka á hátíðarsvæðið. Þá kemur fram í skýrslunni að á leiðinni hafi pilturinn margítrekað hótað lögreglunni. Um hálfri klukkustund eftir að pilturinn var skilinn eftir á Landvegi hafi hann komið í aðsetur lögreglu á hátíðarsvæðinu og haldið uppteknum hætti og hótunum. Hafi honum verið vísað burt en í engu sinnt því og gæslumenn á svæðinu þurft að leiða hann burt.
Segir í dómi héraðsdóms að ljóst sé af framburði lögreglu og vitna að pilturinn var mjög ölvaður og að honum hafi ekki búið nein hætta af því að vera skilinn eftir þar sem veður var gott og hann vel búinn auk þess sem hann átti ekki í vandræðum með að komast til baka mótssvæðið. Enda hafi mótssvæðið verið sjáanlegt þaðan sem honum var sleppt auk þess sem nokkur umferð hafi verið á svæðinu á þessum tíma.