Yfirvinnubann Félags íslenskra atvinnuflugmanna tekur gildi að nýju næstkomandi þriðjudag kl. 14 hafi ekki tekist samningar við Icelandair. Yfirvinnubanninu var frestað eftir að kjarasamningur var gerður í byrjun mánaðar, en samningurinn var felldur með þriggja atkvæðamun.
Yfirvinnubannið olli talsverðri röskun á áætlunum Icelandair. Forystumenn í ferðaþjónustu lýstu mikilli óánægju með yfirvinnubannið enda háannatími í greininni.
Fundur flugmanna og samninganefndar Samtaka atvinnulífsins hófst hjá ríkissáttasemjara í morgun, en fundir sem haldnir hafa verið í vikunni hafa ekki leitt til niðurstöðu.