Farþegar sem áttu að koma til Íslands með flugi Iceland Express frá París síðdegis í gær eru loks komnir út í vél.
Á Textavarpinu kemur fram að vélin eigi að lenda klukkan 00:45 en ljóst er að sú áætlun stenst ekki.
Samkvæmt áætlun átti vélin að fara í loftið klukkan 14:40 í gær.
Engar veitingar um borð í flugvélinni
Anna Rakel Ólafsdóttir, einn farþeganna, segist vonast til þess að vélin fari fljótlega af stað en ekkert hefur staðist varðandi brottför hingað til.
Engar veitingar eru um borð í vélinni, sem er frá Air Finland flugfélaginu, fyrir utan að það er eitthvað smávegis til af vatni en að öðru leyti fá farþegar hvorki vott né þurrt á heimleiðinni. Farþegar voru ekki upplýstir um þetta fyrr en búið var að loka vélinni.
Búin að fá nóg af framkomu Iceland Express
Farþegarnir hafa engar upplýsingar fengið frá Iceland Express aðrar en tölvupóst eða smáskilaboð sem voru send í hádeginu í dag um að vélin færi í loftið klukkan 19 að frönskum tíma (17 að íslenskum tíma).
Var öllum farþegum gert að bíða í sal við hliðið í flugstöðvarbyggingunni á Charles de Gaulle flugvellinum frá klukkan 17 að frönskum tíma í dag og bannað að yfirgefa bygginguna þar sem vélin gæti farið með skömmum fyrirvara. Það eina sem fólki hefur verið boðið upp á er ein pizzasneið í hádeginu og ein samloka með skinku og osti í kvöldmat. Ekki var boðið upp á neitt annað að borða og skipti þar engu hvort farþegar eru á sérfæði eða geta ekki neitt svínakjöts vegna trúar sinnar. Sjoppa sem er á því svæði flugvallarins þar sem farþegarnir biðu í allan dag var lokað klukkustund áður en þeir fóru um borð í flugvélina svo ekki var hægt að kaupa vatn fyrir brottför.
Segir Anna að fólk sé algjörlega búið að fá nóg af framkomu Iceland Express í sinn garð. Aftur á móti hafi starfsmenn á flugvellinum reynt að gera sitt til að aðstoða fólk og veita upplýsingar.
Í gær voru farþegar fluttir á hótel við flugvöllinn eftir að hafa beðið á flugvellinum í fimm tíma.
„Það var svona um sjö-leytið. Þá vorum við flutt á hótel og vorum bókuð í herbergi. Það leit ágætlega út þar til næsta rúta kom. Þá voru öll herbergi fyllt af fólki og margir þurftu að deila rúmum með fólki sem það hafði aldrei hitt áður. Ég var þarna með kærastanum mínum og dóttur okkar. Annar ferðafélagi okkar var í öðru herbergi og okkur tókst að færa hann yfir í okkar herbergi og par, sem búið var að bóka í okkar herbergi með okkur, fór í hans. Þá var einn strákur sem fékk hvergi svefnstað og hann endaði á því að deila rúmi með ferðafélaga okkar. Þetta var allt saman mjög furðulegt. Við vorum því fimm í fjögurra manna herbergi.“
Í frönskum fjölmiðlum í dag hefur komið fram að um tvö hundruð farþegar séu með fluginu og að ástæðan fyrir því að vélin fór ekki á tilsettum tíma í gær sé sú að hún hafi ekki staðist skoðun tæknimanna.
Uppfært klukkan 22:40
Flugvélin er að taka á loft í París, 34 klukkustundum eftir áætlaðan brottfarartíma
Uppfært klukkan 22:55
Á Textavarpinu kemur fram að vélin lendi í Keflavík klukkan 01:26 í nótt og er það staðfestur tími.