Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur fagna því að þjóðvegur 1 við Múlakvísl er nú aftur opinn fyrir umferð.
„Sveitarfélögin vilja koma á framfæri miklu þakklæti til Vegagerðarinnar og starfsmanna hennar fyrir afar snör handtök við að koma á vegasambandi á ný. Lífæð sveitarfélaganna er þjóðvegur 1 og því mikill léttir fyrir þá sem búa og starfa í sýslunni að því óvissuástandi sem skapaðist við rof hringvegarins sé aflétt.
Jafnframt vilja sveitarfélögin koma á framfæri einlægu þakklæti til allra þeirra fjölmörgu björgunarsveitarmanna og annarra sem stóðu langar vaktir við að ferja fólk og farartæki yfir Múlakvísl við erfiðar aðstæður," segir í tilkynningu frá sveitarfélögunum.