„Ég held að ferðaþjónusta í Skaftárhreppi verði fyrir mjög litlum áföllum út af brúnni. Ég veit um fólk sem var að reyna að fá gistingu, en fékk þau svör að það væri alls staðar fullt.“ Þetta segir Björgvin Harðarson, bóndi á Hunkubökkum. Flest bendir til að tjónið í ferðaþjónustunni verði ekki eins mikið og óttast var þegar brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist.
Eftir að brúin fór gaf vegamálastjóri út þá yfirlýsingu að 2-3 vikur tæki að koma á vegsamgöngum aftur yfir Múlakvísl. Samkvæmt því hefði bráðabirgðabrúin ekki orðið tilbúin fyrr en um næstu mánaðamót. Samtök ferðaþjónustunnar brugðust mjög hart við þessum yfirlýsingum og sögðu að neyðarástand myndi skapast ef hringvegur 1 yrði lokaður þessar mikilvægustu vikur ársins í ferðaþjónustunni. Aðilar í ferðaþjónustu á Suðurlandi sendu frá sér svipaðar yfirlýsingar.
Í kjölfarið var settur mikill kraftur í brúarsmíði og jafnframt hófust selflutningar á bílum yfir Múlakvísl. Vegurinn að Fjallabaki hefur einnig verið mikið nýttur.
Þúsundir manna verið selfluttar yfir Múlakvísl alla þessa viku og hefur það heilt yfir gengið vel ef óhappið á þriðjudag er undanskilið þegar rúta fór næstum á hliðina í ánni.
Fjölskylda Björgvins á Hunkubökkum rekur ferðaþjónustu á bænum og eru þau ánægð með hvernig til hefur tekist.
„Það er hins vegar sláandi að Íslendingar sjást varla hérna. Allir í ferðaþjónustu í Skaftárhreppi sem ég hef talað við eru sammála um þetta,“ sagði Björgvin. Hann sagðist telja að íslenskir ferðamenn færu annað vegna frétta um náttúruhamfarir og truflanir á samgöngum. Eins gæti hátt bensínverð haft áhrif.
Björgvin sagði hins vegar að mikil röskun hefði orðið á flutningum eftir að vegurinn fór í sundur. Hann sagði að bændur í Skaftárhreppi og starfsmenn hótelsins á Klaustri hefðu verið beðnir um að sækja vörur til Hornafjarðar, en þangað eru um 200 km. „Þeir hjá Flytjanda sögðu reyndar að þetta hefðu verið mannleg mistök. Landafræðikunnáttu Íslendinga hefur hrakað mikið á seinni árum. Þeir héldu að Hornafjörður væri næsta gata við Kirkjubæjarklaustur.“
„Selflutningarnir hafa alveg bjargað stöðunni,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún segir að full ástæðan hafi verið fyrir ferðaþjónustuna að þrýsta fast á að samgöngum yrði komið strax á yfir Múlakvísl eftir að brúin fór. Ferðaþjónustan hefði ekki getað þolað að vegurinn yrði lokaður í 2-3 vikur yfir besta tíma ársins.
Nú líti allt út fyrir að vegurinn verði aðeins lokaður í eina viku og það sé mikið fagnaðarefni að tekist hafi að stytta þennan tíma um helming. Miklu skipti að skipulagðar hópferðir hefðu lítið raskast.
Erna segir að sem betur fer verði tjón ferðaþjónustunnar mun minna en óttast var.