Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála innan heilsugæslunnar hér á landi.
Bendir hann m.a. á að þeir læknar, sem undir venjulegum kringumstæðum ættu að snúa heim úr sérfræðinámi, skili sér ekki til landsins. „Við getum lent í því að tapa heilli kynslóð lækna,“ segir Lúðvík.
Í umfjöllun um málefni heilsugæslunnar í Morgunblaðinu í dag segir hann jafnframt stöðu heilsugæslu úti á landi vera mjög alvarlega og hana lítt mannaða sérfræðilæknum. Lúðvík segir fólk verða að átta sig á því að íslenska heilbrigðiskerfið sé að hruni komið og þolmörkum varðandi niðurskurð sé náð.
Læknar liggja bæði undir ámæli og stjórn misviturs fólks, að hans mati. Segir hann marga stjórnendur litla þekkingu hafa á störfum lækna. „Hluti af stóra vandamálinu er að við erum með fólk sem fær að taka ákvarðanir án þess að hafa til þess þekkingu og reynslu.“