Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli og vísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar að viðhalda óvissustigi almannavarna næstu tvær vikurnar.
Á þessum tíma verður reglulegt eftirlitsflug yfir jökulinn og fylgst vel með framvindunni. Jafnframt er talið ástæðulaust að viðhalda bannsvæði á austurhluta Mýrdalsjökuls, en vakin er athygli á því að mikilar sprungumyndanir eru á suðausturhluta jökulsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra eftir að flogið var yfir sigkatla í Mýrdalsjökli í dag.
Markmið flugsins var að afla upplýsinga ástand jökulsins og bera þær saman við upplýsingar sem aflað var í flugi þann 11. júlí síðastliðinn. Eftir flugið í dag er ljóst að engar umtalsverðar breytingar hafa orðið á jöklinum.
Leysingavatn er í dýpsta katlinum. Þetta vatn er eðlileg afleiðing sólbráðar af yfirborði jökulsins og
stafar ekki af óvenjulegri jarðhitavirkni undir jöklinum.