Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að samtökin fagni opnun brúarinnar yfir Múlakvísl og hversu hratt og vel verkið hafi gengið.
„Við vorum alltaf sannfærð um að það væri hægt að gera þetta á þessum tíma, ef allt væri sett í botn, segir Erna. „Þess vegna vorum við óhress með yfirlýsingar Vegagerðarinnar á sínum tíma um að brúargerðin myndi taka 2-3 vikur. Við vorum með mikinn þrýsting á að þetta myndi gerast á styttri tíma, það blasti hreinlega við stórtjón.“
Erna segir að selflutningarnir yfir Múlakvísl hafi haft gríðarlega mikið að segja. „Það má segja að hringvegurinn hafi opnast með þeim,“ segir Erna og segir bílaleigurnar hafa tekið á sig mikinn kostnað.
Hún segir að þó að stórtjóni hafi verið afstýrt, þá sé ljóst að ferðaþjónustan hafi beðið nokkuð tjón, en of snemmt sé að segja til um umfang þess. „Þetta var aðallega fyrstu fjóra dagana eftir að brúin fór. Það urðu bæði talsverðar afbókanir og svo komst fólk heldur ekki á áfangastað.“