Vill sniðganga Gylfa

Ásmundur Einar Daðason að merkja fé í fjárhúsunum á Lambeyrum.
Ásmundur Einar Daðason að merkja fé í fjárhúsunum á Lambeyrum. mynd/Helgi Torfason

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvestur-Kjördæmi, spyr í fyrirsögn á bloggi sínu í dag hvort tími sé kominn á að sniðganga Gylfa Arnbjörnsson.

Líkt og fram hefur komið þá hvetur forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, fólk til að sniðganga lambakjöt ef það hækkar um 25% í verði í haust, í viðtali við Fréttablaðið í dag.

Nær nýjum hæðum fyrir Samfylkinguna

„Gylfi Arnbjörnsson, einn helsti leiðtogi alþýðu þessa lands,  fer mikinn gegn íslenskum landbúnaði í dag. Hann tekur upp málflutning Samfylkingarinnar og ræðst á íslenska matvælaframleiðslu. Það er mjög sérstakt að forseti ASÍ skuli hvetja Íslendinga til að sniðganga innlenda framleiðslu á sama tíma og gjaldeyrir er af skornum skammti og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Maður hefði haldið að það ætti að vera keppikefli Alþýðusambandsins að auka innlenda framleiðslu á öllum sviðum.  

Vaskleg framganga Gylfa fyrir stefnumálum Samfylkingarinnar nær nú nýjum hæðum og það er kannski ekki að ástæðulausu sem gárungarnir segja að hann starfi sem vinstri hönd Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar. Það voru fáir sem börðust harðar gegn almennri skuldaleiðréttingu heimilanna í landinu. Barátta hans fyrir samþykkt Icesave samningana er flestum í fersku minni en þar tók hann stöðu með þeim sem vildu að alþýða landsins ábyrgðist skuldir fallinna einkabanka.  Öllum er einnig ljóst að hann notar hvert tækifæri til baráttu sinnar fyrir ESB aðild.   

Nú fjallar hann um samráð bænda gegn fólkinu í landinu. Það væri kannski rétt hjá forseta ASÍ að skoða ástæður þess að íslenskar landbúnaðarafurðir hafa haldið verðbólgunni niðri frá hruni á meðan innflutt matvæli hafa hækkað hana. Man heldur nokkur eftir því að Gylfi Arnbjörnsson hafi gert athugasemdir við að stórkaupmenn og milliliðir taki aukinn hlut í útsöluverði? Hvað tefur forseta alþýðunnar að taka þann slag?  

Ég trúi því ekki að allir félagsmenn sambandsins séu sammála þeirri vegferð sem forsetinn er á," skrifar Ásmundur Einar á bloggvef sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka