„Hlaupið hefur gengið mjög vel til þessa og við eigum von á fyrsta karli í mark eftir um kortér, tuttugu mínútur,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurmaraþons um Laugavegshlaupið sem nú stendur yfir.
Laugavegshlaupið var ræst í morgun kl.9. Alls lögðu 306 hlauparar af stað úr Landmannalaugum í björtu og fallegu veðri. Aðstæður á leiðinni munu vera góðar, örlítið mistur, smá vindur og enginaska í loftinu eins og menn voru hræddir við.
„Það er bongóblíða hérna við markið í Þórsmörk. Það er kannski helst að sólin geti truflað hlaupara - þeim verður svo heitt.“
Fregnir herma að fyrsti karl sé Alexandre Vuistiner frá Sviss en hann fór í gegnum Emstrur (38 km) um kl.12:08. Þá mun fyrsta kona vera Svava Rán Guðmundsdóttir en hún fór hjá Emstrum um kl.12:46.