Vilja minnisvarða um síðutogara

Á hátíð síðutogarasjómanna sem haldin var á Akureyri um helgina …
Á hátíð síðutogarasjómanna sem haldin var á Akureyri um helgina var ákveðið að setja upp minnisvarða um síðutogarana. mbl.is/Sigurður Bogi

Hátíð síðutogarasjómanna var haldin á Akureyri um helgina og tókst vel. Þar var tekin ákvörðun um að setja upp minnisvarða um síðutogarana.

„Ég á engin orð til að lýsa þessu,“ segir Sæmundur Pálsson, skipuleggjandi, um hátíðina. „Það er yndislegt að taka þátt í svona jákvæðu starfi og koma að þessu. Fólk var glatt og ánægt,“ segir Sæmundur.

Hann sagði hátíðina hafa heppnast vel og taldi að um 180 til 190 manns hefðu mætt, síðutogarakarlar, aðstandendur og aðrir sem áhuga höfðu.

„Við buðum forseta bæjarstjórnar, Geir Kristni Aðalsteinssyni, á hátíðina en við ákváðum að leggja það fram að reisa minnisvarða um gömlu síðutogarana. Það voru góðar undirtektir í salnum og Geir Kristinn fékk plagg um þetta í hendurnar,“ segir Sæmundur og segir að síðutogarasjómenn munu leggja áherslu á að af framkvæmdinni verði.

Á dagskrá hátíðarinnar í ár var meðal annars messa og veisla, þar sem Raggi Bjarna og Valgeir Guðjónsson héldu uppi fjörinu. Þá var haldið til Húsavíkur á strandmenningarhátíðina Sail Húsavík þar sem verkalýðsfélagið Framsýn bauð öllum í kaffi og köku.

Aðspurður hvort hátíðin verður árlegur viðburður segir Sæmundur hress í bragði: „Já, af hverju ekki! Þetta er hópur sem hefur gaman af að hittast og svo mega auðvitað fleiri koma.“

Sæmundur Pálsson á Akureyri lét gamlan draum rætast í fyrra …
Sæmundur Pálsson á Akureyri lét gamlan draum rætast í fyrra og auglýsti hátíð fyrir sjómenn af gömlu síðutogurunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert