Ekki skylda að svara í síma

6 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Selfossi í vikunni. Í einu tilviki var um minniháttar meiðsl að ræða en þar var bifreið ekið aftan á aðra á Gagnheiði á Selfossi.

„Ökumaður fremri bifreiðarinnar mun hafa stöðvað bifreið sína til að svara í farsíma sinn og ekki áttað sig á því að engin skylda hvílir á mönnum að svara síma þó hann hringi," segir í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Hinsvegar er mönnum skylt að nota handfrjálsan búnað hyggist þeir tala í farsíma við akstur bifreiðar sinnar.

Þrír voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Að kvöldi miðvikudagsins 13. júlí var slökkvilið kallað að Gagnheiði á Selfossi en þar logaði eldur í afskráðri bifreið sem stóð  á geymslusvæði.

Bifreiðin er ónýt og einhverjar skemmdir urðu á húsi sem hún stóð við.

Fimmtudaginn 14. júlí var lögregla kölluð að húsi á Stokkseyri. Þar hafði kviknað eldur í rafmagnshitateppi í stól og réði húsráðandi niðurlögum eldsins með því að bera stólinn með öllu saman út. Hann brenndist lítillega á hendi við slökkvistarfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert