Hákarlar á Húsavík

Helgi Héðinsson lætur ekki deigan síga kominn á níræðisaldur.
Helgi Héðinsson lætur ekki deigan síga kominn á níræðisaldur. mbl.is/Hafþór

Það er óhætt að segja að það hafi verið lifandi strandmenning við
höfnina á Húsavík í morgun.

Þar voru félagarnir Helgi Héðinsson og Óðinn Sigurðsson ásamt fleirum að taka hákarla á land og skera þá í beitu. Alls var aflinn sjö hákarlar sem þeir fengu á línur sínar í  Skjálfandaflóa í gær.

Þetta vakti að vonum athygli hjá ferðamönnum sem og bæjarbúum á Húsavík og var stöðugur straumur fólks að fylgjast með.

Kristín Helgadóttir náms- og starfsráðgjafi við Álftanesskóla aðstoðaði föður sinn og Óðinn.

„Þetta er æðislegt, gaman að komast í svona aksjón hér fyrir norðan“ sagði hún en  hákarlana verka þeir félagar af sinni alkunnu snilld og þykir hann lostæti.

Óðinn reiknaði með að fá á annað tonn af lifur af hákörlunum en hann notar hana meðal annars til að drýgja dísilolíuna á bifreið sinni auk þess
sem hann er frístundabóndi og rollurnar njóta líka góðs af.

Kristín Helgadóttir við hákarlaskurð.
Kristín Helgadóttir við hákarlaskurð. mbl.is/Hafþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert