„Lyktar af pólitík“

Lambakjöt.
Lambakjöt. Jim Smart

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, segist undrast yfirlýsingar Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, þar sem hann hvatti neytendur til að sniðganga íslenskt lambakjöt og þar með innlenda vöru og íslenskt vinnuafl. Segir hann yfirlýsingu Gylfa lykta af pólitík.

„Við teljum þetta afskaplega óheppileg ummæli hjá Gylfa. Síminn hefur ekki stoppað alla helgi, menn eru gáttaðir, það er fólkið sem starfar í þessum geira og eru félagsmenn aðildarfélaga Alþýðusambandsins,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir neytendamál vera mikilvægan þátt í starfi verkalýðshreyfingarinnar og því miður horfi menn á það að vörur og þjónusta af öllu tagi hafi hækkað í verði. Það sé eins með landbúnaðavörur eins og annað, passa þurfi að verð á þeim rjúki ekki upp úr öllu valdi.

„En nú er verið að ræða aðild að Evrópusambandinu og verið að ræða landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál og manni finnst ákveðin pólitík í þessum ummælum Gylfa. Það vita allir hans afstöðu til ESB. Af hverju hefur ekki verið tekið svona fast á öðrum verðhækkunum?,“ spyr Aðalsteinn.

„Hún lyktar af pólitík þessi harða gagnrýni. Ég geri alls ekki lítið úr þessum neytendaþætti í verkalýðshreyfingunni því þetta snýst jú allt um það að fólk fái sem mest fyrir krónurnar sem það fær í umslagið en að taka eina atvinnugrein út og skora á menn að hætta að kaupa íslenskt lambakjöt, þetta er alvarlegur hlutur. Menn geta unnið að verðlagsmálum með öðrum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka