Óheftur aðgangur að netinu verði tryggður

Frá fundi stjórnlagaráðs.
Frá fundi stjórnlagaráðs. mbl.is/Golli

Meðal þeirra tillagna, sem finna mál í drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá Íslands, er að stjórnvöld skuli tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Þá skuli tryggja óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.

Stjórnlagaráð lagði í dag fram fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá á grundvelli svokallaðs áfangaskjals. Framundan eru umræður um breytingartillögur á ráðsfundum um drögin og má gera ráð fyrir að frumvarpið taki nokkrum breytingum við þær. Stefnt er að því að skila verkinu til forseta Alþingis 29. júlí.

Meðal tillagnanna er að öllum sé frjálst að safna og miðla upplýsingum.  Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skuli vera tiltæk án undandráttar og  tryggja beri með lögum aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. 

Vernd uppljóstrara

Þá skal tryggja með lögum frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald og sömuleiðis vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara. Óheimilt verði að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veiti  upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Ævarandi eign þjóðarinnar

Sérstakt ákvæði er í skjalinu um eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Hljóðar það svo:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum."

Umræðuskjal stjórnlagaráðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert