Slæm samskipti Íslands og Ísraels

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna í …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna í ferð sinni til heimastjórnarsvæða Palestínumanna nýlega.

Stjórnarformaður ísraelskrar rannsóknarstofnunar um utanríkismál segir í grein, að samskipti Íslands og Ísraels séu augljóslega slæm um þessar mundi og það birtist með ýmsum hætti.

Stjórnarformaðurinn, Manfred Gerstenfeld,  vísar m.a. til heimsóknar Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðhera, til heimastjórnarsvæða Palestínumanna, Egyptalands og Jórdaníu nýlega og segir að hann hafi þar lýst stuðningi við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna en gætt þess vandlega, að sniðganga Ísrael í ferðinni.

Þá hafi Birgitta Jónsdóttir orðið fyrst þingmanna til að heimsækja áhöfn skips, sem átti að sigla til Gasasvæðisins. 

Gerstenfeld nefnir ýmis fleiri dæmi, sem hann segir sýna hve óvinsamleg íslenska vinstristjórnin sé í garð Ísraelsmanna. Þá segir hann, að Íslendingar geti ekki verið ýkja stoltir af afstöðu sinni til gyðinga gegnum aldirnar og vitnar m.a.  til ritgerðar Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar um Norðurlöndin og gyðinga. Einnig fjallar hann um mál Evalds Miksonar, sem var sakaður um glæpi gegn gyðningum í Eistlandi í heimsstyrjöldinni síðari.

Þá telur Gerstenfeld það Íslendingum ekki til framdráttar, að þeir hafi veitt Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt árið 2005 í ljósi ýmissa ummæla Fischers um gyðinga.

„Það má velta því fyrir sér hvað hafi fengið utanríkisráðherra Íslands, fámennrar þjóðar með laskað alþjóðlegt orðspor, til að koma til Miðausturlanda og haga sér eins og hann gerði. Er ástæðan hrein sjálfsdýrkun, eins og Skarphéðinsson er vel þekktur fyrir á Íslandi? Er það vegna þess að hann er fulltrúi vinstristjórnar? Eða er það kannski vegna þess að Ísland reynir af öllum mætti að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eftir að slík tilraun mistókst árið 2008? Því þá þyrfti landið atkvæði margra múslimaríkja," skrifar Gerstenfeld.

Grein Gerstenfelds

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert