Ungir íslenskir ökumenn hafa bætt sig

Hraðakstur er það umferðarlagabrot sem flestir eru teknir fyrir. Samkvæmt tölfræði sem sjá má í ársskýrslu lögreglu höfuðborgarsvæðisins fyrir síðasta ár má sjá að karlar eru oftar teknir fyrir þær sakir en konur og jafnframt að yngri karlmenn koma yfirleitt við sögu þegar um ofsaakstur er að ræða. Ungur karlmaður varð einmitt valdur að umferðarslysi nýverið á Gullinbrú. Sá var 17 ára og hafði fengið ökuréttindi þremur dögum fyrir slysið. Í því slasaðist kona á sjötugsaldri alvarlega. Í nýjum umferðarlögum, sem enn hafa ekki verið afgreidd frá Alþingi, er gert ráð fyrir að hækka bílprófsaldurinn um eitt ár. En sitt sýnist hverjum um ágæti þess.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi þegar málið var flutt, að um væri að ræða mikilvægt nýmæli. „Að mati rannsóknarnefndar umferðarslysa er talið unnt að áætla í ljósi fyrirliggjandi rannsókna að hlutfallsleg fækkun umferðarslysa meðal nýliða yrði á bilinu 5-9% ef tillögur frumvarpsins yrðu að veruleika.“ Einnig benti hann á, að núgildandi fyrirkomulag valdi vandkvæðum að ýmsu leyti þegar ökumaður undir 18 ára aldri lendir í slysi sem veldur honum eða öðrum teljanlegu fjárhagstjóni, en hann geti ekki borið fjárhagslega ábyrgð á ökutæki sínu án aðkomu foreldra eða forráðamanna.

Færist yfir á 18 ára ökumenn

Auk þess bendir Umferðarstofa á að aðrar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu séu með 17 ára lágmarksaldur og nýlega hafi Austurríki lækkað aldurinn úr 18 ára í 17 ára, m.a. til að koma á viðlíka kerfi fyrir unga ökumenn og er hér á landi, þ.e. með skilyrtu ökuskírteini, bráðabirgðaskírteini, akstursmati, punktakerfi, akstursbanni og sérstökum námskeiðum fyrir þá sem brjóta af sér. „Það kerfi sem við höfum byggt upp hér á landi fyrir unga ökumenn hefur skilað ótvíræðum árangri, dregið hefur úr hraða- og ölvunarakstri um 50-60% ef miðað er við stöðu mála á undan og eftir aukningu í kröfum til ungra ökumanna sem gerðar voru með breytingu á umferðarlögum 2007.“

Enginn látist undanfarin ár

Umferðarstofa bendir hins vegar á það, að ef litið er til hlutdeildar ungra ökumanna í umferðarslysum síðastliðinn áratug hafi yngsti árgangurinn bætt sig verulega, andstætt því sem gerst hefur hjá nágrannaþjóðum Íslands. „Ennfremur má nefna að af þeim 24 ökumönnum sem létust síðastliðin þrjú ár í umferðarslysum var enginn undir 20 ára aldri, en 13 voru 59 ára eða eldri.“

Ennfremur er á það bent að í greinargerð með frumvarpinu séu birtar þriggja og fjögurra ára tölur um umferðarslys ungra ökumanna, þ.e. frá því fyrir að breytingar voru gerðar á umferðarlögum.

Þarf betri viðbrögð

Niðurstöður hraðamælinga í íbúðahverfum eru sendar sveitarfélögunum til upplýsingar svo þau geti brugðist við þar sem tilefni er til. „Ástæða er hins vegar til að nefna að viðbrögð sveitarfélaganna mættu vera betri þegar kemur að úrbótum vegna hraðaksturs,“ segir í ársskýrslu lögreglunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert