Niðurstaða umsóknar ungs flóttamanns frá Máritaníu um hæli í Noregi liggur ekki fyrir að sögn Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra. Maðurinn fer nú huldu höfði hér á landi og hafa samtökin No Borders í Reykjavík krafist þess að Ögmundur snúi við ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa manninum úr landi.
Mouhamde Lo, 22 ára flóttamaður frá Máritaníu kom til Íslands án þess að hafa fengið svar við hælisumsókn í Noregi. Í hádegisfréttum RÚV var sagt frá því að Lo fari huldu höfði í Reykjavík til að forðast að vera vísað úr landi.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá No Borders samtökunum verður maðurinn sendur í beint í þrælahald í sínu heimalandi ef hann fær ekki hæli í Noregi.
Búið er að kæra ákvörðun útlendingastofnunar og ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að vísa manninum til Noregs.
Ögmundur segir kærurnar muni fara réttilega í gegnum íslenska stjórnsýslu. „Við leggjum ríka áherslu á að maðurinn fái réttláta umfjöllun sinna mála í íslensku réttarkerfi,“segir Ögmundur.
„Ég hef ekki trú á öðru en að maðurinn fái réttmæta meðhöndlun í Noregi þar sem reglum og skuldbindingum samkvæmt á að leiða málið til lykta. Maðurinn á að fá úrlausn sinna mála í Noregi,“ sagði Ögmundur.
Ögmundur vildi ekki tjá sig um það hvort að lögreglan muni leita að manninum og vísa honum úr landi.
„Ég er sannfærður um að verið sé að fara að þeim reglum sem við höfum undirgengist með Dyflinnarreglugerðinni. Samkvæmt þeim skuldbindingum sem Íslendingar hafa undirgengist verðum við að fara þessa leið og þess vegna styðjum við að málið verði til lykta leitt í Noregi,“sagði Ögmundur.