Furðulegt er að ekki hafi orðið jafnharðar umræður hér á landi um fjölmiðlaveldi Baugsmanna og áhrif þess og nú eru í Bretlandi um fjölmiðla Ruperts Murdoch. Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í pistli á vefsvæði sínu. Hann segir að ef götublaðið News of the World hefði gengið erinda eigenda sinna á sama hátt og Fréttablaðið hefði blaðið ekki komið út í 168 ár áður en útgáfunni var hætt.
„Fréttablaðinu hefur verið beitt í þágu eigenda sinna og þess málstaðar sem þeir telja best þjóna hagsmunum sínum allt frá sumrinu 2002. Í þessu skyni hefur blaðið jafnan barist gegn forystusveit Sjálfstæðisflokksins og í þágu Samfylkingarinnar,“ ritar ráðherrann fyrrverandi og einnig að Fréttablaðið, Baugur og Samfylking hafi gert með sér bandalag vorið 2003 til að koma Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum frá völdum.
Björn getur þess að hér á landi sé þess krafist að gert sé upp við banka, fjármálafursta og stjórnmálamenn. „Hvergi er þess hins vegar getið að huga þurfi að fjölmiðlum, fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum eftir bankahrunið. [...] Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þykir mikils virði að eiga skjól hjá Fréttablaðinu. Flokkarnir sem að baki henni standa munu ekki gera neitt sem eigendur blaðsins telja ógna hagsmunum sínum og fjölmiðla sinna.“