Fjárhagsstaða Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, AkureyrarAkademíunar, er afar bágborin og slapp reksturinn í ár raunar fyrir horn fyrir tilstilli styrks frá menntamálaráðuneytinu. Félagið sem er fimm ára í ár var tekið af fjárlögum án skýringa auk þess sem óvissa ríkið um húsnæðismál.
AkureyrarAkademían fékk níu milljónir í styrk af fjárlögum ríkisins á
fjögurra ára tímabili en styrkumsókn félagsins fyrir árið 2011 var hafnað án skýringa. Styrkur ríkisins til starfsemi Akademíunnar hefur því verið meginhluti styrkja sem félagið hefur fengið.
Forsvarsmenn félagsins funduðu nýverið með bæjarráði Akureyrar og ræddu þá erfiðu fjárhagsstöðu sem félagið er í og framtíð þess. „Við vorum ekki að fara fram á neitt en báðum um að fá að kynna okkar og að við fengum frekara samtal hjá Akureyrarbæ,“ segir Pétur Björgvin Þorsteinsson formaður AkureyrarAkademíunar.
Fundurinn kom í kjölfar annars sem haldinn var með menntamálaráðherra. „Það var í tengslum við að ráðuneytið ákvað að koma til móts við okkur, vegna þess að við fórum alveg út af fjárlögum, og bjarga okkur fyrir horn með 500 þúsund króna styrk. Sem varð til þess að við þurftum ekki loka.“
Félagar í AkureyrarAkademíunni eru nú um sextíu talsins en um tuttugu manns nýta sér aðstæðu félagsins til fræðistarfa. Félagið er til húsa í gamla Húsmæðraskólanum en sökum þess að Háskólinn á Akureyri hefur ekki not fyrir húsið lengur eru húsnæðismál í óvissu. Háskólinn hefur ekki treyst sér til að gera samning við AkureyrarAkademíuna um lengri uppsagnarfrest en einn mánuð.
Pétur segir því lítið mega út af bera hjá félaginu á afmælisárinu, og jafnvel þurfi að hugsa gang þess alveg upp á nýtt.
Allnokkrir félagar í meistara- eða doktorsnámi við Háskóla Íslands eða háskóla erlendis hafa eða hafa haft vinnuaðstöðu hjá félaginu og segir Pétur ljóst að ef aðstaðan væri ekki fyrir hendi hefðu flestir þeirra jafnvel tekið ákvörðun um að flytja búferlum.