Fjallað er um jákvæð áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á ferðamannaþjónustuna hérlendis í viðskiptahluta vefútgáfu dagblaðsins Khaleej Times í dag en það er gefið út í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Í fréttinni, sem unnin er upp úr frétt AFP-fréttastofunnar, er talað við nokkra aðila sem starfa í ferðaþjónustunni á Íslandi sem segja gosið í Eyjafjallajökli í fyrra og tapið sem af því hlaust, vera að skila sér tilbaka núna.
„Það hefur orðið til þess að fólk veit af Íslandi á kortinu. Og það hefur komið sér mjög vel fyrir reksturinn. Eyjafjallajökull var alltaf fallegur en nú er hann frægur!,“ er haft eftir Unnari Garðarssyni, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Óbyggðaferðir.