Hækkun á heimsmarkaðsverði lambakjöts skýrir að nokkru leyti að sauðfjárbændur þrýsta nú á um hækkun á verði til bænda, en verðið hefur hækkað um 50% frá ársbyrjun 2008. Ef tekið er tillit til gengisbreytinga er hækkunin 135%.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að þó að sláturleyfishafar hafi ekki enn birt verðskrár sínar sé ljóst að verðið mun a.m.k. hækka um 14% vegna þess að þeir greiddu bændum uppbót á verðið sem þeir tilkynntu sl. haust og einnig hækkuðu þeir verð til bænda um 10% við síðustu páskaslátrun. Landssamtök sauðfjárbænda vilja hins vegar 25% hækkun.
Á síðustu þremur árum hækkaði verð á lambakjöti um 8% sem er langt undir hækkun vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað um 23,5%. Svínakjöt og kartöflur hafa lækkað í krónum talið á þessu tímabili. Fiskur hefur hins vegar hækkað um 35%, mjólk um 22%, brauð og kornvörur um 36,3%, ávextir um 39,3%, grænmeti um 21%, sykur um 75%, kaffi um 55% og gosdrykkir um 39%.