Bandaríkjastjórn er í þann veginn að tilkynna um hugsanlegar refsiaðgerðir gagnvart Íslandi vegna hvalveiða Íslendinga.
AP fréttastofan hefur eftir ónafngreindum bandarískum embættismönnum, að ríkisstjórn Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, muni vísa til bandarískra laga, sem heimila forsetanum að grípa til aðgerða gegn erlendum ríkjum eða ríkisborgurum, sem fara ekki eftir alþjóðlegum samningum.
Um er að ræða svonefnt Pelly ákvæði, en samkvæmt því á viðskiptaráðherra Bandaríkjanna að gefa út staðfestingu til Bandaríkjaforseta á því að hann telji að ríki stundi veiðar á sjávardýrum sem grafi undan friðunarmarkmiðum alþjóðasamtaka og dragi úr virkni þeirra. Forseti Bandaríkjanna hefur heimild til að beita innflutningsbanni á fiskafurðir viðkomandi ríkja eftir að staðfestingarkæran liggur fyrir en hann hefur einnig heimild til að aðhafast ekkert.
AP hefur eftir embættismönnum, að Bandaríkjastjórn hafi einkum áhyggjur af veiðum Íslendinga á langreyðum og útflutningi á hvalaafurðum til Japans og fleiri landa.
Engar veiðar hafa farið fram á langreyðum í sumar en Hvalur hf. tilkynnti nýlega að endanleg ákvörðun verði tekin í ágúst hvort veitt verði í ár. Hrefnuveiðimenn höfðu á mánudag veitt 38 dýr í sumar.
Donald Evans, þáverandi viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sendi árið 2004 staðfestingarkæru á grundvelli Pelly-ákvæðisins til Georges W. Bush, þáverandi forseta. Taldi Evans að Íslendingar græfu undan friðunarmarkmiðum Alþjóðahvalveiðiráðsins með því að ákveða að hefja hvalveiðar í vísindaskyni að nýju. Forsetinn aðhafðist hins vegar ekki í kjölfarið.
Bandaríkjastjórn hefur einnig beitt Pelly-ákvæðinu ítrekað gagnvart Norðmönnum vegna hvalveiða þeirra en aldrei gripið til beinna refsiaðgerða.
AP hefur eftir ónafngreindum embættismanni hjá bandarísku sjávar- og veðurfarsstofnunni, NOAA, að takist Íslendingum að koma á milliríkjaviðskiptum með hvalkjöt að nýju muni það grafa undan hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Fleiri þjóðir muni þá að öllum líkindum hefja hvalveiðar að nýju þótt hvalastofnanirnir hafi ekki enn náð sér eftir ofveiði á síðustu öld.
Meðal þeirra er að banna íslenskum fyrirtækjum, sem tengjast hvalveiðunum, að flytja fiskafurðir til Bandaríkjanna. Þá verði Obama einnig hvattur til að grípa til ýmiskonar diplómatískra aðgerða, jafnvel að bandarískir embættismenn neiti boðum um opinberar heimsóknir til Íslands.
Þá gætu sendimenn einnig dregið sig út úr ýmiskonar samstarfi þjóðanna, svo sem á norðurslóðum.