Fréttaskýring: Kasta Markarfljótinu á milli sín

Sáttafundur verður haldinn á Hvolsvelli í dag vegna deilunnar um varnargarða við Markarfljót. Það er sveitarstjórinn í Rangárþingi eystra, Ísólfur Gylfi Pálmason, sem boðað hefur til fundarins. Þangað mæta fulltrúar Landgræðslunnar og Vegagerðarinnar auk landeigenda beggja vegna árinnar og hefst fundurinn klukkan tvö eftir hádegi.

Aðgerðir sem bitna á öðrum

Breytingin hafði þær afleiðingar í för með sér að fljótið beindist í suður og flæddi yfir gróið land bænda á Merkurbæjunum sunnan þess. Sauðfé varð þar innlyksa á milli vatna og var enn í gær. Þá var unnið að því með ýtu að færa ána út frá Stóru-Mörk III og má þannig segja að bændur kasti Markarfljóti á milli sín þessa dagana.

Bóndinn þar, Ásgeir Árnason, segist ekki vera í neinni deilu við Fljótshlíðinga, þeir séu bara að verja sitt land. „En það réttlætir ekki að brjóta af sér, það má ekki. Menn geta skemmt svo mikið fyrir öðrum með því að gera svona hluti,“ segir Ásgeir, sem var með ýtumann í vinnu í gær. „Við höfum ekkert á móti því að landið verði varið hjá þeim, en það þarf þá að verja okkar land fyrst.“ Hann hefur fengið þau svör að rask þeirra Fljótshlíðinga hafi verið „alveg út úr kortinu“.

„Svo sem að fornu fari hafi verið“

Landgræðslan og Vegagerðin hafa umsjón með gerð og viðhaldi varnargarða, Vegagerðin helst með þeim sem tengjast samgöngumannvirkjum en Landgræðslan þeim sem verja land. Rétt rúm öld er síðan menn byrjuðu að beisla flæði Markarfljóts og opinber stuðningur við það hófst árið 1910. Þar áður hafði það flæmst allt að Holtsósi í austri að Þjórsá í vestri. Sveinn segir að nú séu varnargarðar við fljótið 42 talsins og samanlagt um 40 kílómetrar að lengd.

Haraldur Þórarinsson á Barkarstöðum er algerlega ósammála Sveini um lögmæti aðgerðanna. Hann bendir á ákvæði þessara sömu vatnalaga, sem segir að hafi sama ástand haldist í 20 ár eða lengur, skuli um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo. Farvegur Markarfljótsins hafi ekki runnið yfir téð landsvæði, sem er í heild 3-4.000 hektarar en um 300 hektarar hafa þegar skemmst, í heil sextíu ár. Jarðvegurinn þar sé nú orðinn hálft til eitt fet að þykkt víðast hvar.

Flóð þurfa að fá að dreifa sér

Það sem Fljótshlíðarbændur eru ósáttir við, að sögn Haraldar, er að garðurinn var endurbyggður með allt öðrum hætti en hann var áður. Í stað þess að teygja sig þráðbeinn um 850 metra út á aurana, með þvergarð sem beinir eftirhreytum árinnar suður á bóginn, sveigist hann nú til vesturs eftir um 500 metra.

Fyrrnefnt svæði vilja Landgræðslan og ekki síður Vegagerðin að stór flóð geti dreifst um, til að tempra vatnsflæðið niðri við hringveg svo mikilvægar brýr þar fari ekki. Því segist Haraldur alls ekki mæla gegn, enda komi slík flóð ekki oft, kannski á 100 til 200 ára fresti og garða megi útbúa svo þeir hleypi stórflóðum inn á svæðið. Hins vegar vilji hann að daglegt rennsli árinnar fái ekki að grafa sundur landið óáreitt.

Hann segir að hið opinbera hafi ætlað að byggja garðinn með nýjum hætti án þess að spyrja kóng eða prest út í það. „Af hverju reistu menn ekki garðinn við í upprunalegri stöðu þar sem hann sannaði gildi sitt í sextíu ár og hann tók við hlaupinu sem kom úr Gígjökli? Vegna hvers breyta menn garðinum án þess að hafa nokkur rök fyrir því að nýi garðurinn geri það sama?“ spyr Haraldur.

Skorar á ráðherra að bregðast við

Í lokin er svo óhjákvæmilegt að minnast á þann augljósa áhrifaþátt í málinu, að ríkissjóður stendur ekki styrkum fótum um þessar mundir og að framkvæmdir við varnargarða við jafnstóra jökulá og Markarfljót eru mjög kostnaðarsamar. Geta stofnana til að bregðast við er því ekki sú sama og oft áður, enda fjárheimildir bókstaflega af skornum skammti.

Vinnubrögð fyrir neðan allar hellur

Síðasta haust hófust Vegagerðin og Landgræðslan handa við að endurgera varnargarðinn við Þórólfsfell en sú framkvæmd var stöðvuð af byggingafulltrúa Rangárþings eystra, þar sem ekki hafði fengist neitt framkvæmdaleyfi.

Að sögn Haraldar Þórarinssonar á Barkarstöðum hótuðu forsvarsmenn hinna opinberu stofnana því þá að fara einfaldlega á brott með tækjabúnað sinn, þar sem nóg af verkefnum biði þeirra um allt land og alls kostar óvíst væri hvenær þeir kæmu aftur.

Úr varð að leyfi fékkst fyrir framkvæmdinni, þannig að garðurinn næði nokkrum tugum metra lengra út á aurana en upphaflegar fyrirætlanir gerðu ráð fyrir, áður en hann færi að sveigja til vesturs. Að sögn Haraldar samþykktu landeigendur þetta með þeim skilyrðum fyrir sitt leyti að gætt yrði að því í framhaldinu hvort áin færi að brjóta landið og þá yrði brugðist við því. Þeir hafi allan tímann varað við því að garðurinn yrði ekki endurbyggður eins og hann var áður.

„Síðan þegar kemur í ljós að fljótið er að þessu og við erum að óska eftir að menn standi við þessi loforð, þá hundsar Landgræðslan allavega alveg þessa beiðni. Það er okkur hulin ráðgáta, þetta apparat sem á að verja land,“ segir Haraldur.

Hann segir því að aðgerðir þeirra hafi verið algjör nauðvörn. „Þetta var nauðvörn til að benda mönnum á það að þeir tóku fljótið úr sínum farvegi. Í vatnalögum stendur það skýrum stöfum að ef vatn hefur runnið í 20 ár á sama stað sé það þess farvegur. [...] Við erum ekki í stríði, hvorki við Landgræðslu, Vegagerð né neinn annan. Við erum bara að krefjast þess að menn standi við gefin loforð. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur,“ segir Haraldur.

Ögmundur í Auraseli

Markarfljót hefur lengi valdið mönnum vandræðum í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum. Í frásögn Eiríks á Brúnum af Ögmundi í Auraseli, sem uppi var á 19. öld, segir af óhefðbundnum og óljósum aðferðum sem Ögmundur sá hafði við að breyta farvegi Markarfljóts.

Tóku nágrannar hans eftir því að Þverá braut ekki land hans í Fljótshlíð þótt hann gerði ekkert til að sporna við henni. Fékk þá Bjarni Árnason á Fitarmýri undir Eyjafjöllum Ögmund til að hjálpa sér með Markarfljót, sem eyðilagði engjar hjá honum og sex öðrum.

Ögmundur samþykkti það, með því skilyrði að Bjarni gæti útvegað honum gráan fresskött og grátt ullarreyfi.

Bjarni fékk honum hvorutveggja, og lét Ögmundur köttinn í poka og reyfið í skálmina, vildi engan með sér, kvaddi Bjarna og reið svo út að fljóti. Fór þar af baki, gekk um aurana til og frá og teymdi hestinn á eftir sér og reið svo heim. Enginn vissi, hvað hann gerði við köttinn og reyfið, en eftir nokkra daga fór fljótið í sinn gamla farveg og hefur ekki skemmt Fitarmýrina síðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert