„Menn renna bara á lyktina“

Skötumessurnar í Garðinum hafa verið vel sóttar. Í fyrra mættu …
Skötumessurnar í Garðinum hafa verið vel sóttar. Í fyrra mættu um 330 manns. Myndin er úr myndasafni Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Það er allt að verða klárt,“ sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, en árleg Skötumessa verður haldin þar í kvöld og hefst klukkan 19.00. Boðið verður upp á skötu, saltfisk og fjölbreytta dagskrá.

„Það er svaka stemmning fyrir þessu, ég finn það,“ sagði Ásmundur. Hann sagði að til hans hafi hringt fjölskylda úr Reykjavík og sagt að einn úr hennar hópi fagnaði áttræðisafmæli í dag. 

„Hann óskaði eftir því að halda upp á afmælið sitt í skötuveislunni og hann verður auðvitað sérstakur heiðursgestur,“ sagði Ásmundur. Hann kvaðst gera ráð fyrir að 350 manns mæti hið minnsta. Í fyrra komu 330 gestir.

Skatan var skorin í gær, búið er að útvatna saltfiskinn og fleira góðgæti sem Axel Jónsson yfirkokkur og hans fólk reiðir fram er komið á staðinn. En hvernig á fólk að finna Miðgarð Gerðaskóla þar sem Skötumessan fer fram?

„Menn renna bara á lyktina,“ sagði bæjarstjórinn. „Þeir sem vilja mæta koma í Miðgarð í Gerðaskóla. Það verður fánaborg  hér fyrir utan og auðvelt að rata.“

Auk skötu og saltfisks verður boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði.  Eins og sést í meðfylgjandi auglýsingu. Allur ágóðinn rennur til góðgerðarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert