Skipalyftan í Vestmannaeyjum hefur verið gerð upp og var fyrsta skipið tekið upp í morgun til reynslu. Unnið er að prófunum á búnaðinum í dag og á morgun. Reiknað er með að skipalyftan verði komin í gagnið eftir þjóðhátíð í Eyjum.
Skipalyftan er eign Vestmannaeyjahafnar. Sveinn Rúnar Valgeirsson, framkvæmdastjóri hafnarinnar sagði að ekki hafi verið hægt að taka upp skip í Vestmannaeyjum frá því að skipalyftan bilaði í október 2006 fyrr en nú.
Mikilvægt fyrir atvinnulífið í Eyjum
Sveinn sagði það skipta miklu fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum að fá skipalyftuna aftur í gang. Hún sé mikilvæg fyrir iðnaðarmenn og ekki síst útgerðarmenn að þurfa ekki að láta taka skip sín upp annars staðar á landinu en geta gert það í heimabyggð. Þetta sé framfaraskref bæði fyrir höfnina og byggðarlagið í heild.
Sveinn taldi að höfnin muni ekki annast daglegan rekstur heldur verið samið yrði við einhvern til að reka skipalyftuna nú þegar hún er aftur nothæf.
Friðrik Björgvinsson hefur verið verkefnisstjóri við skipalyftuna frá því ákveðið var að gera hana upp í árslok 2009. Hann sagði að sami spilafjöldi sé í lyftunni og áður en þó var henni breytt nokkuð til þess að hægt sé að taka upp litla togara, stutt og þung skip.
Þá var keyptur nýr stjórnbúnaður frá Rolls Royce Naval Marine Inc. í Bandaríkjunum. Áætlað var að endurgerð skipalyftunnar kostaði 380 milljónir króna og er framkvæmdin enn innan þeirra marka, að sögn Friðriks.
Kap II VE var tekin upp til reynslu í morgun. Friðrik sagði að prófa eigi hvort lyftan uppfyllir skilyrði sem sett voru. „Við erum búnir með fyrsta prófið. Það var að lyfta þessu skipi,“ sagði Friðrik.
Báturinn vegur 730 tonn en lyftan á að ráða við 1.200 tonn. Dælt verður 400-500 tonnum af sjó í bátinn til að þyngja hann og prófa burðargetu lyftunnar. Það verður gert í dag og á morgun.
Tveir slösuðust þegar lyftan bilaði
Morgunblaðið greindi frá því á sínum tíma að vinnuslys hafi orðið í skipalyftunni 17. október 2006 þegar undirstöður gáfu sig. Verið var að taka Gandí VE upp í lyftuna.
„Var upptakan langt komin þegar vír slitnaði og það olli því að undirstöður gáfu sig. Voru fimm menn við botnskoðun og lentu þeir allir í sjónum. Tveir þeirra slösuðust og voru fluttir á sjúkrahús. Annar þeirra kenndi eymsla í baki og eftir skoðun var hann lagður inn. Hinn fékk skurð á höfuðið en fékk að fara heim eftir að búið var að hlúa að honum. Mikil mildi þykir að ekki fór verr,“ sagði í Morgunblaðinu daginn eftir óhappið.