Umhverfisverndarsamtök fagna

Hvalveiðibátur siglir inn Hvalfjörð.
Hvalveiðibátur siglir inn Hvalfjörð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umhverfisverndarsamtök hafa í dag lýst ánægju með þá ákvörðun Gary Locke, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, að senda Bandaríkjaforseta svonefnda staðfestingarkæru vegna hvalveiða Íslendinga.

Um er að ræða staðfestingu á því, að viðskiptaráðuneytið telji Íslendinga grafa undan friðunarmarkmiðum alþjóðlegra sáttmála. Samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði í bandarískum lögum hefur Barack Obama, forseti, nú 60 daga frest til að ákveða hvort gripið verði til formlegra refsiaðgerða gegn Íslendingum.

Í tilkynningu frá samtökunum Humane Society International segir Kitty Block, að yfirgnæfandi meirihluti Bandaríkjamanna sé andvígur hvalveiðum. Nú gefist Obama forseta einstakt tækifæri til að sýna, að Bandaríkin séu í fararbroddi þeirra ríkja sem vilja stöðva hvalveiðar. 

„Það er ljóst að Ísland hættir ekki hvalveiðum fyrr en umheimurinn leggur áherslu á kröfur sínar með miklum efnahagslegum þrýstingi," er haft eftir Taryn Kiekow hjá samtökunum Natural Resources Defense Council. „Bandaríkin verða að gripa til alvarlegra refsiaðgerða."

Þá er haft eftir Leigh Henry, talsmanni World Wildlife Fund, að hvalir tilheyri engum einstökum þjóðum. Verndun hvala kalli á alþjóðlega samvinnu og trúverðugleiki Alþjóðahvalveiðiráðsins sé í húfi. 

Aðgerðir vegna hvalveiða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert