Útnefningin vekur undrun

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is / Hjörtur

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir yfir undrun sinni á útnefningu bandaríska viðskiptaráðuneytisins á Íslandi samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði (e. Pelly Amendment Certification) vegna hvalveiða Íslendinga.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið segir að bandarísk stjórnvöld séu ekki sjálfum sér samkvæm þegar þau gagnrýna langreyðarveiðar Íslendinga annars vegar en óska eftir stuðningi Íslands og annarra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins við kvóta sinn af norðhval við Alaska hins vegar.

„Tekið skal fram að Ísland hefur stutt umræddar hvalveiðar Bandaríkjanna enda eru þær sjálfbærar. Hins vegar liggur fyrir að veiðar Íslendinga á langreyði eru ekki síður sjálfbærar en veiðar Bandaríkjamanna á norðhval.“ 

Í tilkynningu ráðuneytisins er bent á það að bandaríska viðskiptaráðuneytið  mæli með því við Bandaríkjaforseta að gripið verði til tiltekinna diplómatískra aðgerða gagnvart Íslandi vegna hvalveiða hér við land. Samkvæmt Pelly-ákvæðinu hefur Bandaríkjaforseti 60 daga frest eftir útnefningu til að meta stöðuna og tilkynna Bandaríkjaþingi um hvort og þá til hvaða aðgerða hann grípi.

Ráðuneytið bendir á að bandarísk stjórnvöld hafi reglulega útnefnd Japan og Noreg samkvæmd Pelly-ákvæðinu. Þá var Ísland útnefnd samkvæmt því árið 2004. Ekki hefur verið gripið til neinna viðskiptaþvingana í þessum tilvikum.

Hvalveiðar Íslendinga eru sjálfbærar

Þá segir ráðuneytið að hvalveiðar Íslendinga séu  „byggðar á traustum vísindalegum grunni og hafið er yfir allan vafa að þær eru sjálfbærar. Til marks um það er að árlegur kvóti Íslands af hrefnu er 216 dýr úr um 70.000 dýra stofni og árlegur kvóti af langreyði er 154 dýr úr um 20.000 dýra stofni.

Veiðarnar eru enn fremur fyllilega löglegar og viðskipti með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar samningsskuldbindingar Íslands. Til grundvallar hvalveiðum hér við land liggur ályktun Alþingis frá 10. mars 1999 en þar var lýst yfir skýrum stuðningi við hvalveiðar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Bandarísk stjórnvöld hafa einkum gagnrýnt langreyðarveiðar Íslendinga með vísan til þess að tegundin sé í útrýmingarhættu. Þessi fullyrðing fær ekki staðist enda byggist hún ekki á vísindalegum grundvelli. Stofn langreyðar á Norður-Atlantshafi er í mjög góðu ástandi og er alfarið ótengdur stofni sömu tegundar í Suðurhöfum sem er í bágu ásigkomulagi.“

Viðvörun viðskiptaráðherra Bandaríkjanna

Gary Locke, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, ritaði Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréf  23. nóvember 2010 vegna hvalveiða Íslendinga. Þar lýsti hann áhyggjum og sterkri andstöðu Bandaríkjanna við aukningu í hvalveiðum okkar.

Í bréfinu kemur m.a. fram að vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hafi lagt til að heildarveiði á skíðishvölum í Norður-Atlantshafi yrði 46 hvalir. Íslendingar hafi veitt  tvisvar til þrisvar sinnum fleiri skíðishvali á ári og það utan vébanda stjórnar Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Þá segir ráðherrann að veiðar á 148 skíðishvölum, þ.e. langreyðum, árið 2010 sé veruleg aukning frá veiðum á 125 slíkum hvölum 2009 og það sé mjög mikil aukning frá tímabilinu 1987 til 2007 þegar alls voru veiddir sjö skíðishvalir. 

Locke skrifar að þessar veiðar séu hvorki til að mæta þörfum né eftirspurn á markaði og þær séu ekki í samræmi við ábyrga og sjálfbæra fiskveiðistjórnun, sem Ísland sé vel þekkt fyrir.

Hann bendir á að afstaða Bandaríkjanna varðandi hvalveiðar stjórnist bæði af stefnumörkun og gildandi lögum, þar á meðal viðauka við lög um fiskveiðar frá 1967 (Fishermen's Protection Act) sem kenndur er við Pelly. 

Donald Evans, þáverandi viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti árið 2004 að Ísland hefði gerst brotlegt við þennan viðauka vegna hvalveiða sem „drógu úr áhrifum verndaáætlunar Alþjóðahvalveiðiráðsins“.

Locke rifjar upp í bréfi sínu að þá hafi bandarísk stjórnvöld verið fullvissuð um það af íslenskum stjórnvöldum að hvalirnir væru einungis veiddir til neyslu innanlands. Nú séu vísbendingar um að svo sé ekki og það krefjist þess að Bandaríkin meti hvort bregðast eigi við því. 

Pelly ákvæðið opnar fyrir viðskiptaþvinganir

Fjallað var um Pelly-ákvæðið í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 8. ágúst 2003. Þar segir m.a.:

„Bandaríkjaþing samþykkti Pellyákvæðið árið 1971. Það var breytingartillaga við lög til verndar fiskistofnum. Upphaflegt markmið þess var að vernda laxastofna á Norður-Atantshafi, sem þá hafði verið sett veiðibann á, gegn veiðum danskra sjómanna en hvalveiðar falla einnig undir sama ákvæði.

Samkvæmt því á viðskiptaráðherra Bandaríkjanna að gefa út staðfestingu til Bandaríkjaforseta á því að hann telji að ríki stundi veiðar á sjávardýrum sem grafi undan friðunarmarkmiðum alþjóðasamtaka og dragi úr virkni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert