Reykjavíkurborg ætlar að skoða hvernig minnka má tún í borginni. Í stað mikilla grasflæma kæmu svæði með sjálfbærum plöntum sem sleppa minna af frjókornum út í andrúmsloftið.
Markmiðið er að sögn borgarinnar, að draga úr frjókornamagni, fegra umhverfið og minnka kostnað vegna grassláttar.
Nú nálgast sá tími þegar magn frjókorna í andrúmsloftinu er í hámarki. Frjóofnæmi hefur aukist á undanförnum áratugum, rétt eins og annað ofnæmi og vegna mikilla hlýinda í fyrrasumar er frjótími birkifrjóa helmingi lengri en hann var í fyrra.
Önnur umferð grassláttar í Reykjavík er nú hafin. Starfsmenn hverfisstöðvanna eru að slá umferðareyjar og tún víða um borgina. Fyrsta umferð sláttar var farin fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Reykjavíkurborg segir, að grasspretta hafi verið óvenju lítil á höfuðborgarsvæðinu fram yfir miðjan júní vegna kuldatíðar og þurrka en tekið kipp þegar hlýna tók í júlí. Því hafi víða verið loðið í borginni en úr því sé verið að bæta um þessar mundir þegar sláttumenn taka til starfa.
Annarri sláttuumferð lýkur á næstu dögum en þriðja umferð verður farin um miðjan ágúst.
Á fjölförnum stöðum í miðborginni og í skrúðgörðum Reykjavíkurborgar er grasið slegið vikulega allt sumarið. Annars staðar hefur verið dregið úr slætti sem nemur einni umferð vegna breyttrar forgangsröðunar á verkefnum hjá Reykjavíkurborg og sparnaðar.
Færri sláttuumferðir eru farnar í ár hjá Vegagerð Ríkisins vegna sparnaðar en grassláttur á stofnbrautum, t.d. við Sæbraut og Vesturlandsveg, er á forræði hennar. Er slegið þrisvar sinnum meðfram stofnbrautum í ár í stað fimm sinnum áður.