Áætlunin verði tilbúin í september

Ráðhús Reykjavíkurborgar.
Ráðhús Reykjavíkurborgar. mbl.is / Hjörtur

Flutningur á málefnum fatlaðra frá ríkinu til Reykjavíkurborgar og óvissa um fjármögnun málaflokksins veldur drætti á framlagningu þriggja ára áætlunar borgarinnar samkvæmt tilkynningu frá meirihlutanum í borgarstjórn. Áætlunin átti að liggja fyrir þann 14. febrúar síðastliðinn eins og komið hefur fram en hefur ekki enn verið lögð fram.

„Þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2011 var samþykkt 14. desember 2010 var ekki búið að staðfesta flutning á málaflokknum til sveitarfélaga af hálfu Alþingis. Þá lá heldur ekki fyrir heildstæð tekju- og útgjaldaáætlun með nákvæmri skiptingu á milli sveitarfélaga og því var alls óvíst hvernig fjármögnun yrði háttað á árinu 2011. Fullbúin útgjaldaáætlun varðandi málaflokkinn liggur nú fyrir, en ennþá er unnið að samkomulagi um fjármögnun,“ segir í tilkynningunni.

Þegar ganga hefði átt frá endurskoðun á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 með tilliti til flutningar á málefnum fatlaðra til borgarinnar hafi komið í ljós að málið hafi verið styttra á veg komið hjá ráðuneytum en áætlað hafi verið og enn liggi ekki fyrir niðurstöður um fjármögnun málaflokksins. Fram kemur ennfremur í tilkynningunni að stefnt sé að því að þriggja ára áætlun verði tilbúin í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert