„Við viljum hrósa Obama forseta og ríkisstjórn hans fyrir að beita sér með þessum hætti gegn Íslandi og villimannlegum hvalveiðum þess og við hvetjum forsetann til þess að beita sér með hliðstæðum hætti gegn Japan og Noregi að sama skapi,“ segir bandaríska kvikmyndaleikkonan Hayden Panettiere, talsmaður samtakanna Save the Whales Again!
Haft er eftir Jeff Pantukhoff, stofnanda samtakanna, að hann og Panettiere hafi hitt Obama í janúar 2008 þegar hann var í framboði til embættis forseta Bandaríkjanna. Hann hafi þá sagt að ef hann næði kjöri myndi hann beita sér gegn hvalveiðiþjóðum.
„Við erum þakklát forsetanum fyrir að standa við orð sín og taka fyrsta djarfa skrefið. Við hlökkuð til að sjá fleiri djarfar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnar hans til þess að binda endi á hvalveiðar í atvinnuskyni í eitt skipti fyrir öll,“ segir Pantukhoff.