„Það eru víða miklir erfiðleikar hjá fólki. Fyrir suma er þetta ekki spurning um að forgangsraða reikningum heldur spurning um hvort peningarnir fari í mat eða húsnæði,“ segir Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða sem reka félagslegar leiguíbúðir í eigu Reykjavíkurborgar.
Vanskil hafa aukist hjá Félagsbústöðum á síðustu árum og stefna í að verða um 100 milljónir á þessu ári, en voru 12 millj. árið 2007. Sigurður segir að Félagsbústaðir reyni að koma til móts við fólk í erfiðleikum, en ef enginn greiðsluvilji sé til staðar geti komið til þess að fólk sé borið út. Tíu leigjendur voru bornir út í fyrra, en félagið á 2.154 leiguíbúðir.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að markaðsleiga lækkaði fyrst eftir hrun, en hefur hækkað aftur. Fjöldi þeirra sem fá húsaleigubætur í Reykjavík hefur aukist um 60% á aðeins tveimur árum. Fjölgunin á almennum markaði er 164%. Sigurður segir að húsnæðismarkaðurinn hafi breyst á síðustu árum þannig að fólk með lágar tekjur eigi nánast enga möguleika á að eignast húsnæði.