Eldur, sem kviknaði í Eden í Hveragerði laust eftir miðnættið, virðist hafa kviknað í eldhúsi staðarins.
Ösp Vilberg Baldursdóttir, sem býr skammt frá Eden, segir að eldurinn hafi sést fyrst ofan við eldhús staðarins og breiðst hratt út. Nú sé að mestu búið að slökkva eldinn í veitingastaðnum sjálfum en enn logi í gróðurhúsum sem tengjast byggingunni.
Logn er í Hveragerði og eldurinn náði ekki að breiðast yfir í nærliggjandi hús þótt hann væri mikill. Ösp segir, að mikinn og svartan reyk leggi nú upp af húsunum, sem séu rústir einar.
Allt tiltækt slökkvilið frá Hveragerði og Selfossi er á staðnum en svæðið umhverfis húsin hefur verið girt af. Einnig eru björgunarsveitir mættar á staðinn til að aðstoða við slökkvistarfið en líklegt þykir að það muni standa yfir í alla nótt.
Garðyrkjustöðin Eden hefur lengi verið einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Suðurlandi en á síðasta áratug var áætlað að 3-400 þúsund manns kæmu þar við árlega. Þar var rekinn veitingastaður, verslun og sýningargróðurhús.
Bragi Einarsson stofnaði fyrirtækið sumardaginn fyrsta 1958 og hann rak Eden til ársins 2006 eða í 48 ár, er hann seldi reksturinn.
Árið 2008 varð rekstrarfélagið gjaldþrota. Þá keypti Sparisjóðurinn á Suðurlandi félagið á nauðungaruppboði og leigði síðan rekstur Edens.