Eldurinn öskraði

mynd/Hafsteinn Jónasson

Það var Aldís Hafsteinssdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, sem tilkynnti um eldinn í Eden í nótt. Hún og systir hennar voru á gangi ásamt mönnum sínum þegar þau urðu eldsins vör og hringdu á slökkviliðið.

„Þá var enginn eldur kominn upp úr þakinu en það stóð mikil reykjasúla upp úr þakinu á gróðurhúsinu,“ segir hún. Hún segir biðina hafa verið langa en það hafi samt ekki tekið slökkvilið og lögreglu nema örfáar mínútur að koma á staðinn.

„Svo fór eldurinn upp úr þakinu og breiddist ótrúlega fljótt út. Það virðist hafa verið mikill eldsmatur þarna inni og plastklæðning sem var mjög eldfim.“

Hún segir eldinn hafa verið jafnvel meiri en þegar kviknaði í flugeldageymslu í bænum og að stórir kolsvartir reykjarbólstrar hafi stigið til himins. „Og hávaðinn í eldinum var svo sérkennilegur; hann öskraði,“ segir hún.

Aldís segir eldsvoðann að sjálfsögðu mikið áfall og fólk í bænum sé miður sín yfir brunanum. Reksturinn hafi verið samofin sögu Hveragerðisbæjar og margir bæjarbúar starfað þar á einhverjum tíma.

„Eden hefur verið burðarás í ferðaþjónustunni hérna í gegnum tíðina og það er búinn að vera rekstur þarna í 50 ár. Maður finnur að fólk er slegið,“ segir hún en hún var í um klukkutíma við rústirnar í morgun og segir fólk hafa drifið að.

Húsnæðið var í eigu Sparisjóðs Suðurlands en reksturinn í höndum einkaaðila. Sá kom á staðinn í nótt og segir Aldís áfallið augljóslega hafa verið mikið enda mikil vinna búin að fara í að byggja upp reksturinn og ferðamannastraumurinn búinn að vera stöðugur undanfarið.

Hún segir sögu reksturs á Eden-blettinum þó ekki lokið. „Eden verður sárt saknað en við munum leggja allt kapp á að þarna verði byggð upp ferðamannaþjónusta sem sómi er af, með svipuðum hætti.“

Aldís vill koma þökkum til þeirra sem tóku þátt í slökkvistarfinu. „Það var aðdáunarvert að fylgjast með starfi slökkviliðs, lögreglu og hálparsveita á vettvangi, því þetta var mikill eldur,“ segir hún.

Reykurinn frá eldinum fór í 2,5 km hæð.
Reykurinn frá eldinum fór í 2,5 km hæð. mynd/Hafsteinn Jónasson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert