„Þetta er eitthvað svo vonlaus staða sem maður er í,“ segir viðmælandi Morgunblaðsins sem hefur undanfarin ár verið í leiguhúsnæði í eigu eins bankanna. Nú er bankinn að selja íbúðina og hefur beðið fjölskylduna að rýma hana. Hann getur ekki keypt íbúðina og illa gengur að finna leiguhúsnæði í bæjarfélaginu.
„Það er ekki möguleiki að fá íbúðir í þessu hverfi núna,“ segir viðmælandinn í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag, en hann hefur síðustu mánuðina reynt að finna aðra íbúð í sama hverfi svo að börnin þurfi ekki að skipta um skóla.
„Leiguverð hefur hækkað um 40-50%. Ég get nefnt sem dæmi að ég er að borga 150 þúsund á mánuði fyrir íbúðina sem ég er í, en ég er núna að fara að skoða miklu minni íbúð þar sem leigan er 180 þúsund krónur á mánuði.“
Viðmælandi blaðsins hefur velt fyrir sér að kaupa íbúðina sem hann leigir. Á henni hvílir lán frá Íbúðalánasjóði sem hann gæti yfirtekið. Mismunur á láninu og kaupverðinu að frádregnu eigin fé er hins vegar rúmlega 9 milljónir. Til þess að geta fjármagnað kaupin þarf hann því að útvega 9 milljónir eftir öðrum leiðum. „Ég kem alls staðar að lokuðum dyrum þegar ég bið um 100% lán eins og bankarnir voru að bjóða fólki fyrir hrun. Það sérkennilega við þetta er að afborganir af láninu sem ég er að biðja um eru sama upphæð og ég borga í leigu. Ég get sýnt fram á að ég ræð við þetta því að ég er búinn að vera á leigumarkaði í níu ár og hef alltaf staðið í skilum. Þetta er eitthvað svo vonlaus staða sem maður er í. Bönkunum er skítsama um fólk eins og okkur.“