Íslenskur karlmaður, 36 ára gamall, liggur á sjúkrahúsi í Amsterdam í Hollandi eftir heiftuga hnífstunguárás í gærkvöldi. Maðurinn var á ferðalagi um Evrópu ásamt tveimur félögum sínum.
Þeir fengu sér gönguferð í gærkvöldi og fóru m.a. í hraðbanka. Skyndilega kom maður aftan að þeim og stakk einn þeirra í bakið.
„Hann var stunginn fimm stungum,“ sagði faðir mannsins sem særðist í árásinni. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð í gærkvöldi. Hann fór í aðra aðgerð í nótt vegna innvortis blæðinga.
Sá særði var vakinn nú síðdegis og töldu læknarnir viðbrögð hans lofa góðu um bata. Hann er ekki talinn vera í lífshættu.
Félagar þess sem ráðist var á sögðu að árásarmaðurinn hafi verið „snarbrjálaður“ þar sem hann réðist óvænt á manninn. Þeir sögðu að vettvangurinn hafi verið eins og vígvöllur. Félagana tvo sakaði ekki.
Mennirnir þrír voru langt komnir í rúmlega hálfsmánaðar langri ferð sinni um Evrópu og ætluðu að halda frá Amsterdam í dag.