Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, hefur óskað eftir því við sendiherra Rússlands á Íslandi að hann kanni hvort Rússar geti mögulega liðsinnt vegna erfiðleikanna í Landeyjahöfn, að því er fréttavefur Eyjafrétta greinir frá.
Elliði staðfesti að hann hefði rætt við Andrey V. Tsyganov, sendiherra Rússa á Íslandi, um Landeyjahöfn.
„„Við ræddum sérstaklega um þann hluta vandans sem snýr að núverandi ferju og mikilvægi þess að reyna að finna skip sem er heppilegt til siglinga í Landeyjahöfn.“ Elliði sagði Tsyganov vera á förum til Moskvu núna á þriðjudaginn og þar muni hann setja málið í farveg. Þá sagðist Elliði einnig hafa rætt við sendiherran um sanddælingu og ýmislegt fleira sem snýr að höfninni,“ segir m.a. á vef Eyjafrétta.
Elliði tók fram að samtal hans við sendiherrann hafi verið óformlegt. Þá kvaðst hann aðspurður ekki hafa leitast eftir því að Rússar viðurkenndu sjálfstæði Vestmannaeyja!