Margir minnast Bóbó

Tæplega 2.300 manns hafa kvittað undir minningarsíðu á Facebook, tileinkaða apanum Bóbó, sem bjó í áratugi í Eden í Hveragerði. Eftir því sem næst verður komist fór apinn forgörðum í eldsvoðanum í nótt.

Þeir eru eflaust margir sem muna eftir Bóbó, sem lét falla hnyttna gullmola og gaf litla gjöf í eggi, ef peningur var settur í kassann sem bar búrið hans. Þeir sem hafa krotað minningarorð um apann á minningarsíðunni hafa þó skiptar skoðanir á tilvist og endalokum Bóbó.

„Mér fannst hryllingur hvernig talandi api var læstur inni dag og nótt eins og hvert annað villidýr. Hvíl í friði vinur, þú ert loks kominn á betri stað,“ segir einn.

„Æi, sakna Bóbó :S, en ég er alla vega búin að koma minningunum af honum til barnanna minna, sem er bara gott,“ segir annar.

„Eimur berst með austan blæ, Eden þarf að kæla, enda liggur yfir bæ, apasteikarbræla,“ yrkir svo Gísli nokkur Ásgeirsson.

Facebook-síðan um Bóbó

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert