Íslenska leiðin til fyrirmyndar

Hagfræðingurinn segir að aðrar þjóðir ættu að taka Íslendinga sér …
Hagfræðingurinn segir að aðrar þjóðir ættu að taka Íslendinga sér til fyrirmyndar. Kristinn Ingvarsson

Skuldugar Evrópuþjóðir ættu að taka Ísland sér til fyrirmyndar, þar sem áherslan var lögð á að bjarga fólkinu frekar en einkareknum bönkunum, segir hagfræðingurinn Marco Pietropoli.

Pietropoli lét ummælin falla í þætti á Presstv.ir þar sem umræðuefnið var skuldavandi Evrópuríkja. Sagði hann löndin hafa hunsað íslensku formúluna en í staðinn hefði þeim blætt eignum sínum og sjálfræði fyrir bankana.

„Í grundvallaratriðum, þá er það þannig að ef við lítum til þess sem allir eru að reyna að forðast, að fara eins og Ísland (doing an Iceland), eins og þeir segja, þá tóku Íslendingar rétta ákvörðun. Þeir ákváðu að sjá um fólkið sitt frekar en bankana og þeir eru eins og stendur í mun betri stöðu en meirihluti Evrópu. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að horfast í augu við raunveruleikann og ef þú skuldar of mikið þá verður þú að afskrifa hluta skuldanna,“ sagði Pietropoli meðal annars.

Hann sagði vestræn ríki hafa lifað um efni fram í langan tíma og að sínu mati væri komið að endastöð í fimmtíu ára skuldasöfnunarferli. Alltof miklar skuldir væru orðnar til í heiminum og tími til kominn að hætta tímabundnum neyðaraðgerðum og taka á rót vandans.

Viðtal við Presstv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert