Slökkvistarfi er lokið

Eldurinn logaði í öllu húsinu.
Eldurinn logaði í öllu húsinu. mynd/Vilhjálmur Roe

Slökkvistarfi í Eden lauk kl. 4.10 í nótt en húsnæðið er gjöreyðilagt. Ekkert stendur eftir nema járnsperrur og steyptir veggir. Slökkvilið í Hveragerði og á Selfossi unnu saman að því að slökkva eldinn og tóku á milli 30-40 slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfinu.

Tilkynnt var um eldinn tíu mínútur eftir miðnætti en þremur stundarfjórðungum seinna var húsið alelda. Að sögn lögreglu virðist sem eldurinn hafi komið upp í eldhúsinu en þar sást fyrst eldur og reykur.

Slökkvilið og lögregla fengu fljótt staðfest að húsið var mannlaust og var fólk aldrei í hættu. Um tíma stóð til að rýma nokkur hús í Heiðarbrún vegna reyks sem lagði þar yfir en þegar ganga átti í hús og láta fólk vita hafði reykurinn snúið til annarrar áttar.

Björgunarsveitir voru á staðinum til að aðstoða lögreglu við að loka svæðinu og lögreglu- og björgunarsveitarmenn sinna nú gæslu við rústirnar en seinna í dag mun fara fram rannsókn á brunanum.

Aðkoman var hrikaleg

Slökkvistarfi að ljúka

Eldurinn breiddist hratt út

Eldur í Eden

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert