„Staðan er raunverulega verri en menn hugðu að mati bankans,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, um kostnaðinn af yfirtökunni á Sparisjóði Keflavíkur.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins metur Landsbankinn eigið fé SpKef neikvætt um nálægt þrjátíu milljarða króna. Þá munar nálægt nítján milljörðum á mati Landsbankans á stöðunni og því sem áður hafði verið metið af hálfu ríkisins og gæti þurft 38 milljarða króna framlag frá ríkinu til að fullnægja kröfum Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall. Það samræmist þeim tölum sem fram komu í frétt Stöðvar 2 um málið í gærkvöldi.
Steinþór vill ekki staðfesta þessar tölur í Morgunblaðinu í dag en segir stöðuna verri en lagt var upp með. Málið fari líklega fyrir úrskurðarnefnd, samkvæmt samningnum um yfirtökuna.