„Það er mikill drungi yfir öllu og þetta er ein svartasta stund í sögu Noregs frá því í seinni heimsstyrjöldinni,“ sagði Lísbet Sveinsdóttir hönnuður, en hún var í versluninni ELM í miðborg Osló, þegar sprengingin varð þar mjög nálægt í dag.
„Við stóðum þarna, ég og Erla Þórarins myndlistarmaður, þá bara dundraðist þetta. Við vissum strax að þetta var ekki jarðskjálfti og sögðum strax sprengja,“ sagði Lísbet. Gólfið hristist undir þeim í búðinni, rúður nötruðu og hlutir hrundu úr hillum. Rúðurnar brotnuðu þó ekki.
„Síðan hljóp fólk í gegnum borgina,“ sagði Lísbet. Hún sagði mikil skelfing hafi gripið um sig. „Fólk þeyttist bara eftir götunni öskrandi. Það fylltist allt af reyk eins og það væri kviknað í. Það kom ekkert annað til greina en að þetta væri sprengja.“
Pappír rigndi úr skrifstofuhúsunum eins og skæðadrífa. „Loftið var fullt af því sem virtist vera pappír,“ sagði Lísbet.
Lísbet sagði að dagurinn hafi verið ógnvænlegur og sorglegur í Osló. Auk sprengingarinnar gekk byssumaður um á eyju í nágrenninu og skaut á ungmenni.
„Göturnar í miðborginni hafa allar tæmst. Það sést varla nokkur maður úti en nokkrir leigubílar á stangli að keyra fólki heim,“ sagði Lísbet. Hún var komin heim til sín þar sem hún býr í miðborginni, rétt fyrir aftan konungshöllina.
Búið er að vara fólk við að vera á ferli í miðborginni og taldi Lísbet miðborginni kunni að verða lokað og því óvíst hvort verslunin ELM þar sem hún vinnur verður opin á morgun. Búðin er við Övre Slottsgate 12 og torgið og stjórnarbyggingarnar í næsta nágrenni og þinghúsið næstum beint fyrir framan búðina. Lísbet taldi víst að rólegt verði í miðborginni næstu daga.
Hún sagði að stór hluti íbúa Osló sé í sumarleyfi um þessar mundir. Auk þess varð sprengingin síðdegis á föstudegi en margir fara snemma heim á föstudögum til að fá lengri helgi með fjölskyldunni. Því hafi ekki verið jafn margir í skrifstofuhúsunum í dag og hefði verið t.d. á mánudagsmorgni.
Heima hjá Lísbet við Óskarsgötu voru sjö Íslendingar og ætluðu þau að halda þar kyrru fyrir um stund.