Tengsl milli bóluefnis og drómasýki

Evrópska lyfjastofnunin segir að tengsl hafi fundist á milli svínaflensubóluefnisins Pandemrix og sjalgæfrar tegundar drómasýki og það skuli því ekki gefið börnum eða unglingum nema sem síðasta úrræði.

Stofnunin hóf að rannsaka tengsl bóluefnisins, sem framleitt er af GlaxoSmithKline, og drómasýki, eftir að tilkynnt var um tilfelli sjúkdómsins í Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi og Bretlandi.

Alls hefur um 31 milljón manna verið bólusettir með Pandemrix en stofnunin hafði í júlí fengið tilkynningar um 335 tilfelli drómasýki.

Í rannsókninni kom í ljós að börn og unglingar sem sprautuð hafa verið með Pandemrix eru sex til þrettán sinnum líklegri til að fá drómasýki en önnur börn. Sagði í tilkynningu frá stofnuninni að leitt hefði verið í ljós að „bóluefnið hefur líklega haft áhrif á erfðafræðilega eða umhverfistengda þætti sem kunna að hafa aukið áhættuna á drómasýki og að aðrir þættir kunni að hafa haft áhrif.“

Íslendingar keyptu 300 þúsund skammta af bóluefninu og var um helmingur þeirra notaður. Skammtarnir renna annars vegar út í október 2011 og hins vegar í október 2012.

Frétt á BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka